Kosið í Hafnarfirði

ÉG HEF fylgst áhugasöm með umræðunni um stækkun álvers í Straumsvík. Þykir merkilegt að bæjarstjóri Hafnarfjarðar skuli leggja málið undir íbúa bæjarins. Ekki mjög títt á Íslandi og þykir mér að fleiri mættu fylgja fordæminu. Til dæmis gæti bæjarstjórn Mosfellsbæjar boðað til kosninga um lagningu mislægra gatnamóta í Álafosskvosinni. Sveitarstjórn í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur ærið tilefni til að boða til kosninga um það hvort virkja eigi í neðri Þjórsá til að framleiða orku fyrir álver. Ríkisstjórn Íslands mætti líka alveg boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um frekari stóriðjuvæðingu á Íslandi.

Í Noregi var boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort landið ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Undanfari kosninganna var sá, að mikil fræðsla fór fram um kosti og galla þess að gerast aðildarland ESB. Jafnmiklu fé frá hinu opinbera var varið í báðar hliðar málsins og gátu Norðmenn gengið til kosninga eftir að hafa hlotið góða fræðslu sem leyfði þeim að mynda sér skoðun byggða á þekkingu. Þetta þykir mér dæmi um stjórnvöld sem leiða vagninn vel.

Gott væri nú ef málum væri þannig farið varðandi kosningarnar um stækkun ALCAN-álvers í Straumsvík. En, ó nei. Þar er háð undarleg kosningabarátta með ALCAN fremst í flokki. Engin fræðsla af hálfu hins opinbera hefur farið fram. Sól í Straumi, samtök fólks sem hefur kynnt sér afleiðingar stækkunar og er andsnúið henni af mismundandi ástæðum, standa í baráttu í sjálfboðavinnu gegn milljarða risa. Milljarða risa sem hefur aðeins eina hagsmuni: að hagnast meira. Hafnfirðingar og landsmenn allir hafa hins vegar mjög flókinna hagsmuna að gæta varðandi stækkun álversins í Straumsvík. Skoða þarf efnahagslegar afleiðingar, atvinnumál, skipulagsmál, orkumál, umhverfismál, náttúruvernd, mengun, fasteignaverð og ótal margt fleira - frá öllum sjónarhornum. Í svona stóru máli er nefnilega gott að taka kostina og gallana, setja allt á vogarskálarnar og komast að því hvort vegur þyngra.

Hverjum þykir sitt í stórum málum sem litlum, vogarskálarnar okkar eru jafn misjafnar og við erum mörg. Það er svo eingöngu af hinu góða þegar lýðræði er virkt og einstaklingurinn fær að taka vog sína og hella úr henni á kjörseðil. Hins vegar þykir mér eitthvað bogið við það að sjálfur álverseigandinn (í þessu tilfelli ALCAN) hafi leyfi til að halda úti áróðri um eigið ágæti í því skyni að sannfæra fólk um að kjósa sig. Er það ekki ljóst að ALCAN vill stækka álverið sitt? Er það ekki líka ljóst að ALCAN vill stækka álverið eingöngu vegna þess að rekstareiningin þykir ekki hagkvæm í núverandi mynd? Eða er einhver haldin þeirri villu að halda að ALCAN vilji stækka álver vegna þess að stjórn fyrirtækisins þyki svo vænt um Hafnfirðinga? Varla. Svo ég vitni í forstjóra ALCAN á Íslandi, Rannveigu Rist, en hún sagði eitthvað á þessa leið: "Mér finnst að Íslendingar ættu að hlúa að þeim álverum sem þegar eru til staðar". Eigum við nú að líta á álversrisana sem lifandi persónur og finna til með þeim? Það er alveg ljóst að ALCAN hefur eingöngu eigin hagsmuna að gæta og í áróðri sínum mun fyrirtækið beita öllum brögðum til að fá sínu framgengt. Í slíkri áróðursherferð gleymist sú staðreynd að fyrir íbúa Hafnarfjarðar og aðra Íslendinga snúast kosningar um stækkun álvers í Straumsvík á engan hátt um ALCAN. Þær snúast eingöngu um hagsmuni Hafnfirðinga og þjóðarinnar.

Þótt ég sé mjög andsnúin því að gengið verði endanlega af Þjórsánni dauðri og að mengun á Suðvesturhorni landsins verði aukin gengdarlaust til að ALCAN geti hagnast meira, er ég ekki að tala gegn stækkun álversins í þessu máli. Mál mitt fjallar um það að kosningarnar í Hafnarfirði á laugardaginn, ættu ekki snúast um hagsmuni ALCAN. Þær ættu að snúast um hagsmuni Hafnarfjarðar og þeirra sveita þar sem orkan í stækkað álver verður fengin. Þær ættu að snúast um mengunarmál, orkumál, atvinnumál, umhverfis- og skipulagsmál, náttúruvernd og efnahagsmál. Þær ættu að snúast um hagsmuni og skoðanir fólksins. Ekki um það hvernig efnahags- og rekstrarreikningur ALCAN mun líta út á næstu árum. Vilji ALCAN er augljós. Nú er komið að því að vilji fólksins komi í ljós.

Þegar Hafnfirðingar hafa svo hafnað stækkuðu álveri eða valið það, væri eðlilegt að þjóðin fengi að segja sína skoðun svo mark sé tekið á, varðandi stóra samhengið. Stóriðjuvæðing Íslands er mál okkar allra en ekki einkamál einstakra sveitarfélaga og orkufyrirtækja. Við berum sameiginlega ábyrgð á því, í hvers konar landi afkomendur okkar fæðast og það er stór ábyrgð sem axla skyldi af alvarleika.

Höfundur er leikstjóri.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband